Þorleifur Eiríksson, Sigurður Ívar Jónsson, Halldór Pálmar Halldórsson og Þorleifur Ágústsson.
RORUM
Háskóli Íslands
Einstakt botndýrasafélag við suðurströnd Íslands
Vegna fyrirhugaðrar efnistöku fram af Landeyja- og Eyjafjallasandi voru tekin sýni til að kanna botndýralíf á efnistökusvæðinu. Niðurstöður sýna einstakt samfélag hryggleysingja á botni. Sýni voru tekin á 65 stöðvum á 82 km löngu svæði framaundan ströndinni. Vestan Markarfljóts var svæðið 72 km2 og austan Markarfljóts 47 km2. Burstaormurinn Spiophanes bombyx fanst á 97 % stöðva og Nephtys ciliata á 92 % stöðva. Þessar tvær tegundir eru því ríkjandi á svæðinu. Pungrækjan Eudorella emarginata fannst á 68% stöðva og Echiura ormar á 62%. Aðrar tegundir; burstaormar, samlokur, krabbadýr og ígulker koma fyrir á 2 – 61 % stöðva, en ekki er hægt að sjá hvort ákveðnar tegundir eða flokkunareiningar skeri sig úr í fjölda. Algengasta samlokan er halloka (Macoma calcarea) 33% og síðan pétursskel (Parvicardium pinnulatum) 23%. Ígulkerið Echinocardium sp. var áberandi, fanst á 17% stöðva. Burstaormurinn (Sthenelais limicola) vakti líka athygli, enda ekki algengur. Það sem gerir niðurstöðurnar sérstakar er samfélagsgerðin, sem ekki hefur sést áður. Hér er um mjög stórt svæði að ræða þar sem aðeins fundust 42 tegundir, eða 4-16 tegundir, að meðaltali 10, á hverri sýnatökustöð. Ennfremur sýnir skyldleikagreining að allar stöðvar voru mjög svipaðar og ekki hægt að greina skiptingu eftir svæðum, nema að stöðvar vestan Markarfljóts sýndu aukinn skyldleika við hvora aðra en lægri skyldleika við stöðvar austan fljótsins. Sama á við um stöðvarnar austan Markarfljóts. Hér er um að ræða áhugaverða niðurstöðu í ljósi hve stórt svæðið er og einsleit samfélagsgerðin er.