ULVA (Maríusvunta): „HVEITI HAFSINS”, MÓDEL-TEGUND FYRIR FRAMSÆKIÐ SJÁVARELDI

29. desember 2021 eftir

Síðastliðinn áratug hefur aukist mjög áhuginn á því að nýta vistkerfi strandsvæða til að rækta heilnæmt og náttúrulegt hráefni sem nýta má til manneldis og/eða í framleiðslu verðmætra afurða.

Hópur 105 vísindamanna frá 28 þjóðlöndum hefur tekið höndum saman til að tengja saman vísindi, iðnað og viðskiptalífið í Evrópu, Asíu og Ameríku og víðar með það að markmiði að efla nýtingu og ræktun afurða úr hafinu. Verkefnið er stutt af COST áætlun Evrópusambandsins.

Tilgangur COST verkefna (COST Actions) er að byggja upp samstarfsnet á ákveðnum rannsóknasviðum með þátttöku vísindamanna af ýmsum sviðum vísinda. Þátttakendur í COST verkefnum skiptast á reynslu og niðurstöðum rannsókna í gegnum fundi og ráðstefnum, vinnustofum og heimsóknum.  

Rannsóknarhópurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að grænþörungur af ættkvíslinni ulva, þekkt á íslensku sem maríusvunta, sé besti valkosturinn til að nota sem módel-tegund. Hópurinn byggir þessa niðurstöðu á fyrri þörungaverkefnum sem styrkt hafa verið af ESB en einnig býr ulva yfir ákveðnum eiginleikum sem hópurinn telur hentuga.

Lengi hefur verið áhugi að nýta tegundir af ulva í manneldi og af þeim sökum er til talsvert af gögnum um næringar- og efnainnihald þörungsins (s.s. prótein, kolvetni, litarefni og andoxunarefni). Ekki síst hefur verið rannsakað hvort að ulva innihaldi lífvirk efni sem nýta má meðal annars í lækningavörur.

Ræktun ulva fer ýmist fram í sjó eða í landeldisstöðvum. Ulva getur framleitt meiri lífmassa á hvern fermetra en nokkur planta sem vex á landi, eða 25-40 tonn þurrefni á hvern hektara lands á ári. Til samanburðar má rækta á ári 2,1 tonn af sojabaunum, 4,1 tonn af hveiti og 5,1 tonn af maís. Enn fremur gegnir ulva mikilvægu hlutverki í lífríki strandsvæða sökum þess að plantan virkar sem einskonar sía á ákveðin næringarefni úr umhverfinu (biofilter). Þetta er gríðarlega mikilvægt á svæðum þar sem losun lífrænna efna er mikil, svo sem frá fiskeldi, og þannig kemur ulva í veg fyrir lífræna mengun og ofauðgi eins og þörungablóma.

Verkefnið ULVA (MARÍUSVUNTA): „HVEITI HAFSINS”, MÓDEL-TEGUND FYRIR FRAMSÆKIÐ SJÁVARELDI sameinar þverfaglegar aðferðir og sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda. Verkefnið skoðar ræktun ulva á þverfaglegan máta, eða út frá sjónarmiði líffræði, vistfræði, fiskeldis, verkfræði, hagfræði og félagsvísinda. Verkefnið mun leiða af sér frekari þróun í vísindum og tækni sem tengist nýtingu strandsvæða. Einnig mun verkefnið skapa atvinnu- og rekstrartækfæri í strandsvæðasamfélögum ásamt því að hafa önnur jákvæð samfélagsleg áhrif.

Ulva verkefnið uppfyllir núverandi áherslu Evrópusambandsins (Horizon 2020) á  fæðuöryggi samfélaga (Societal Challenges Priorities).Verkefnið mun enn fremur styðja við 14 markmið Sameinuðu þjóðanna um verndun og nýtingu náttúruauðlinda (UN Sustainable Development Goals 14; UNSDG). 

Það er Dr. Þorleifur Ágústsson sem stýrir verkefninu fyrir hönd RORUM.

Verkefnið nefnist á ensku: ULVA (SEA LETUCE): TOMORROW’S ‘WHEAT OF THE SEA’, A MODEL FOR AN INNOVATIVE MARICULTURE