Sigurður Ívar hefur byrjað á rannsóknarverkefni í líffræði hjá Háskóla Íslands. Leiðbeinandi er dr. Þorleifur Eiríksson dýrafræðingur hjá RORUM og umsjónarkennari er dr. Gunnar Þór Hallgrímsson professor við HÍ.
Verkefnið fjallar um samfélög hryggleysingja á sjávarbotni, samsetningu þeirra í návígi við fiskeldisstöðvar og hvernig samfélög byggjast upp í hvíld frá fiskeldi. Markmið verkefnisins er að athuga hvort tegundir sem fyrstar koma inn á raskað svæði hafi bein áhrif á hvaða tegundir koma í kjölfarið. Tilgátan er að búast megi við ákveðinni fylgni milli fjölda einstaklinga af ákveðnum tegundum og að niðurstaðan sé ekki endilega eins á nálægum svæðum.