Samstarfsverkefni Náttúrustofu Vestfjarða, Náttúrustofu Austurlands og rannsókna og ráðgjafafyrirtækisins RORUM „Birtingarmyndir Loftlagsbreytinga“ hlaut styrk úr Loftlagssjóði.
Verkefnið hefur það að markmiði að gera vefsíðu sem sýnir samfélög hryggleysingja á hafsbotni á ákveðnum stað á mismunandi tíma.
Aukning koltvísýring (CO2) í andrúmslofti hefur margvíslegar breytingar í för með sér sem einu nafni eru nefndar loftslagsbreytingar. Meðal þeirra breytinga sem verða er að sjórinn hitnar og súrnar, þ.e. sýrustig (pH) sjávar lækkar.
Náttúrlegar sveiflur eru miklar í vistkerfum sjávar, en með loftlagsbreytingum má búast við varanlegum breytingum.
Á sjávarbotni eru fjölbreytt samfélög hryggleysingja, sem er hægt að skilgreina með tegundum dýra í hverju samfélagi og hlutfallslegum fjölda einstaklinga. Þessi samfélög hryggleysingja eru stöðugt að breytast, dýrategundum fækkar eða fjölgar á víxl.
Á vefsíðu verkefnisins, https://fjolbreytt.is, er samfélögunum lýst á myndrænan hátt, með því að sýna hvaða tegundir eru til staðar á hverjum tíma og hlutfallslegum fjölda einstaklinga innan tegundar.
Gögn sem eru notuð eru í verkefninu eru frá því, a) áður en fiskeldi hefst á því svæði, b) í 200 metra fjarlægð eða meira frá fiskeldissvæði sem hefur verið hvílt í nokkra mánuði og c) í 1000 metra fjarlægð frá næsta fiskeldissvæði.
Birtar eru myndir af samfélögunum frá mismunandi árum og þannig hægt að sjá á vefsíðunni hvernig samfélögin breytast frá ári til árs. Jafnframt er sýndur meðalfjöldi einstaklinga einstakra tegunda á hverjum tíma og þannig má sjá hvernig fjöldi einstaklinga viðkomandi tegundar breytist frá ári til árs.
Með því að skoða samfélög botndýra frá ári til árs og fjölda einstaklinga einstakra dýrategunda, má sjá hvort breytingar virðast tilviljunarkenndar eða hvort um leitni sé að ræða. Breytingar geta orðið á ákveðnum þáttum samfélaga eins og tegundasamsetningu eða fjölda eða hlutfallsegum fjölda einstaklinga einstakra tegunda.
Verða varanlegar breytingar á botndýrasamfélögunum, þannig að t.d. ákveðnar tegundir hverfi, eða að aðrar tegundir komi til að vera, eru þær breytingar líklega vegna breytinga á umhverfisþáttum í sjónum sem hugsanlega má rekja til loftslagsbreytinga (hærri hiti og lægra sýrustig í sjónum).
Það þarf þó að taka það fram að þau gögn sem sýnd eru á síðunni segja ekki um það hvort breytingar á tegundasamsetningu og fjölda botndýra séu rakin til loftslagsbreytinga.