Mismunandi breytingar á botndýralífi utan og innan þverunar Dýrafjarðar.
Markmið verkefnisins er að kanna hvort sömu breytingar, ef einhverjar, hafa orðið á botndýralífi utan og innan brúarinnar í Dýrafirði. Verkefnið er framhald verkefnisins „Samanburður á fjöru- og botndýralífi fyrir og eftir þverun Dýrafjarðar“ og er einnig styrkt af Vegagerðinni. Skýrsluna má nálgast hér.
Dýrafjörður á norðanverðum Vestfjörðum var þveraður árið 1991. Árið 1985, eða nokkru áður en framkvæmdir hófust, voru gerðar þar umfangsmiklar vistfræðirannsóknir, meðal annars á hryggleysingjum í leirum, fjörum og á botni fjarðarins. Þessar rannsóknir voru endurteknar á árunum 2006–2007 með sömu aðferðum og notaðar voru í fyrri rannsóknum. Hér eru niðurstöður þessara tveggja rannsókna tímabila bornar saman. Birt eru meðaltöl um fjölda einstaklinga af ákveðnum tegundum eða dýrahópum af fjörusniðum og botnsvæðum og borin saman við tölur af samsvarandi svæðum í fyrri rannsóknum. Jafnframt er reiknuð fjölbreytni á mismunandi svæðum og skyldleiki samfélaga á svæðunum, bæði innan sömu rannsóknar og á milli rannsókna. Niðurstöður þessara tveggja rannsókna, sem gerðar voru með 21–22 ára millibili, eru mjög líkar.
Í fyrri rannsókn voru viðmiðunarstöðvar teknar fyrir utan brúarstæðið áður en fjörðurinn var þveraður, en þær stöðvar voru ekki endurteknar á árunum 2006–2007 . Í þessari rannsókn er áherslan á að rannsaka þessar tvær stöðvar og tvær stöðvar innan þverunar til samanburðar. Sýnataka á þessum stöðvum var því endurtekin 31 ári eftir að upphaflegsýni eru tekin.