Klíkuskapur innan botndýrasamfélaga

Markmið verkefnisins er að athuga hvort möguleg fylgni sé á milli fjölda einstaklinga af mismunandi tegundum botndýra sem byggja upp botnsamfélög í grennd við fiskeldisstöðvar. Verkefnið er unnið sem BS-verkefni í gegnum Háskóla Íslands.

Berufjörður við sunnanvert Austurland hefur verið mikilvægt svæði fyrir fiskeldi á Íslandi frá árinu 2000.

Lífríki sjávarbotnsins má þó ekki gleymast, en það er veigamikill partur af vistkerfi fjarðarins. Af því gefnu hafa eldisfyrirtækin fært eldisstöðvar sínar reglubundið um svæði til þess að hvíla sjávarbotninn og leyfa honum að byggja sig upp aftur. En síðan kemur spurningin: Hvað ræður því hvaða tegundir botndýra koma á raskað svæði og endurbyggja samfélagið?

Sýni af sjávarbotninum voru tekin á tveimur stöðum við Berufjörð þar sem finna má fiskeldi, annars vegar Glímeyri og hins vegar Hamraborg. Sýnin voru tekin með nokkurra mánaða millibili, en það var gert til þess að geta séð breytingar á botnlífinu með tímanum.