Þorleifur Eiríksson, Böðvar Þórisson og Guðmundur Víðir Helgason. 2015. Samanburður á fjöru- og botndýralífi fyrir og eftir þverun Dýrafjarðar. Náttúrufræðingurinn 85 (1–2), bls. 74–85.

Dýrafjörður á norðanverðum Vestfjörðum var þveraður árið 1991. Árið 1985, eða nokkru áður en framkvæmdir hófust, voru gerðar þar umfangsmiklar vistfræðirannsóknir, meðal annars á hryggleysingjum í leirum, fjörum og á botni fjarðarins. Þessar rannsóknir voru endurteknar á árunum 2006–2007 með sömu aðferðum og notaðar voru í fyrri rannsóknum. Hér eru niðurstöður þessara tveggja rannsóknatímabila bornar saman. Birt eru meðaltöl um fjölda einstaklinga af ákveðnum tegundum eða dýrahópum af fjörusniðum og botnsvæðum og borin saman við tölur af samsvarandi svæðum í fyrri rannsóknum. Jafnframt er reiknuð fjölbreytni á mismunandi svæðum og skyldleiki samfélaga á svæðunum, bæði innan sömu rannsóknar og á milli rannsókna. Niðurstöður þessara tveggja rannsókna, sem gerðar voru með 21–22 ára millibili, eru mjög líkar. Það er 46–57% skyldleiki milli sömu svæða á botni 1985 og 2006. Skyldleiki sömu sniða á leirum á milli rannsókna er 42,3% og 52%. Í fjörunni er skyldleikinn á bilinu 62–66%. Fjölbreytnin á botni er mikil: H´=3,3–4,3. Fjölbreytnin er minni í fjörum en meiri breytileiki milli stöðva: H´=1,9–3,3. Niðurstöðurnar eru að sjálfsögðu ekki nákvæmlega eins á svæðunum milli rannsókna en erfitt er að benda á sérstakar breytingar sem rekja megi til þverunar Dýrafjarðar, nema í nánd við brúarhafið.

Vestfirðir, Dýrafjörður, Botndýr, Fjara, Þverun, Fjölbreytni, Skyldleiki.